Ferill 1137. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2221  —  1137. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur um meðgöngu- og ungbarnavernd á landsbyggðinni.


     1.      Eru starfandi ljósmæður á öllum starfsstöðvum heilsugæsla á landinu? Ef ekki, hvernig er meðgöngu- og ungbarnavernd tryggð á þeim landsvæðum?
    Í heilbrigðisumdæmunum sex á landsbyggðinni er mönnun ljósmæðra á heilsugæslustöðvum og starfsstöðvum þeirra aðeins mismunandi en alls staðar er áhersla lögð á að tryggja meðgöngu-/mæðra- og ungbarnavernd. Eftirfarandi yfirlit sýnir nánar stöðuna hjá heilbrigðisstofnunum í hverju heilbrigðisumdæmi fyrir sig:
     Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE). Á HVE eru átta starfsstöðvar. Ljósmæður sinna mæðravernd á sex starfsstöðvum en læknir sinnir mæðraverndinni á tveimur þeirra, þ.e. Búðardal og Hólmavík. Konur sem tilheyra starfsstöðvunum sem læknir sinnir geta einnig sótt mæðravernd á stöð þar sem ljósmóðir veitir þjónustu.
     Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVEST). HVEST rekur tvær heilsugæslustöðvar sem eru opnar alla virka daga og sjö heilsugæslusel þangað sem læknir fer einu sinni til tvisvar í viku. Heilsugæslustöðvarnar eru staðsettar á Ísafirði og Patreksfirði og er meðgöngu- og ungbarnavernd sinnt þar af ljósmæðrum. Ljósmóðir sem staðsett er á Ísafirði fer reglulega til Patreksfjarðar. Konur í mæðraeftirliti þar sem eingöngu eru sel koma til Ísafjarðar eða Patreksfjarðar í skoðanir. Sama er að segja um ungbarnavernd.
     Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN). Á HSN eru starfandi ljósmæður á öllum starfsstöðvum heilsugæslunnar. Ljósmæður sinna mæðravernd en það eru ýmist ljósmæður eða hjúkrunarfræðingar sem sinna ungbarnavernd.
     Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA). Hjá HSA starfa ljósmæður á öllum heilsugæslum og sinna þar mæðravernd en hjúkrunarfræðingar sinna ungbarnavernd að mestu í sex vikna skoðun og þar á eftir.
     Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU). Á HSU eru ljósmæður starfandi við mæðravernd á öllum starfsstöðvum stofnunarinnar á Suðurlandi. Í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum eru starfandi ljósmæður sem sinna ungbarnavernd fyrstu níu vikurnar eftir fæðingu. Á öðrum starfsstöðvum HSU eru það hjúkrunarfræðingar sem sinna ungbarnavernd en í einhverjum tilvikum eru þeir reyndar einnig menntaðir sem ljósmæður.
     Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Á starfsstöðvum heilsugæslu HSS eru starfandi ljósmæður sem sinna mæðra- og ungbarnavernd.

     2.      Er veitt heimaþjónusta ljósmæðra í öllum heilbrigðisumdæmum? Hvernig er heimaþjónusta tryggð á þeim stöðum þar sem ekki eru starfandi ljósmæður?
    Heimaþjónusta við nýbakaðar mæður og börn þeirra er ýmist veitt með vitjunum frá heilsugæslu viðkomandi heilbrigðisstofnunar eða af sjálfstætt starfandi ljósmæðrum gegnum sérstakan samning Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) um heimaþjónustu eftir fæðingu. Samkvæmt þeim samningi gefst konum kostur á að fara heim af fæðingarstofnun innan 36–72 klst. frá fæðingu barns og njóta í staðinn umönnunar ljósmóður í heimahúsi fyrstu tíu dagana eftir fæðingu. Af sex heilbrigðisumdæmum á landsbyggðinni eru ljósmæður á slíkum samningi við SÍ í fimm heilbrigðisumdæmum. Á árinu 2022 fóru ljósmæður í 7.556 heimavitjanir samkvæmt samningnum í þessum umdæmum.
    Fyrirkomulag til að tryggja þjónustu við móður og barn getur verið aðeins mismunandi, t.d. eftir því hvort á viðkomandi svæði séu ljósmæður á samningi við SÍ eða ekki. Eftirfarandi yfirlit sýnir nánar hvernig þjónustan er tryggð og hvernig fyrirkomulag er í hverju heilbrigðisumdæmi fyrir sig:
     Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE). Þegar ekki eru fyrir hendi ljósmæður sem sinna heimaþjónustu á samningi við SÍ þá fá öll börn vitjun hjúkrunarfræðings úr ung- og smábarnaverndinni a.m.k. þrisvar sinnum til fjögurra vikna aldurs og oftar ef þörf krefur. Oft er viðkomandi mæðrum einnig boðið að vera heldur lengur inni á fæðingardeild ef heimaþjónusta ljósmóður er ekki til staðar.
     Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVEST). Heimaþjónusta er veitt af ljósmæðrum á Norðursvæðinu, þ.e. á Ísafirði, Súðavík, Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Hins vegar er ljósmóðir ekki staðsett á Patreksfirði og engar fæðingar fara þar fram. Því er ekki boðið upp á heimaþjónustu þar. Öllum konum sem búa á Suðursvæðinu (Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal og nágrannasveitum) er bent á að vera nálægt fæðingarstað fram yfir fimm daga skoðun barns og hafa þá flestar fengið heimavitjanir þar áður en þær fara heim. Engar ljósmæður á Vestfjörðum eru á rammasamningi SÍ um heimaþjónustu ljósmæðra.
     Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN). Á öllum starfssvæðum HSN stendur til boða heimaþjónusta ljósmæðra, fyrir utan Norður-Þingeyjarsýslu, en þar er ljósmóðir að bíða eftir heimaþjónustuleyfi/samþykki frá SÍ. Á meðan á þeirri bið stendur sinnir ljósmóðirin viðkomandi konum í aukavitjunum í tengslum við ungbarnavernd frá heilsugæslunni og fer þá oftar í byrjun en venjubundið er.
     Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA). Í Fjarðabyggð og á Egilsstöðum er veitt heimaþjónusta ljósmæðra gegnum samning við SÍ við sjálfstætt starfandi ljósmæður. Á Vopnafirði, Seyðisfirði og á Djúpavogi er hins vegar ekki slíkur samningur við ljósmæður þannig að hjúkrunarfræðingur í ungbarnavernd sér um heimavitjanir.
     Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU). Heimaþjónusta ljósmæðra á Suðurlandi er í boði þar sem ljósmæður eru búsettar og hafa svokallað heimaþjónustuleyfi. Samkvæmt rammasamningi SÍ er að jafnaði ekki greitt fyrir heimaþjónustuvitjanir þar sem fjarlægð er lengri en 70 km frá heimili ljósmóður. Ljósmæður geta þó sótt sérstaklega um leyfi til SÍ til að sinna heimaþjónustu við konur sem búa lengra frá. Á Suðurlandi eru ljósmæður með heimaþjónustuleyfi í Hveragerði, á Selfossi, Hellu, Kirkjubæjarklaustri og í Vestmannaeyjum. Þeim fjölskyldum sem búa lengra frá stendur til boða að fá þjónustu í sængurlegu á HSU eða á Landspítala.
     Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Heimaþjónusta ljósmæðra er veitt í Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja samkvæmt rammasamningi SÍ.